Ávarp
Stolt af árangri ársins í krefjandi rekstrarumhverfi
Rekstur félagsins gekk ágætlega á árinu í erfiðu rekstrarumhverfi. Áhrifa hárra heimsmarkaðsverða á hrávörum gætti áfram, sérstaklega í eldsneytishluta starfseminnar. Áhrif hárrar verðbólgu og almennra launahækkana sem samið var um á vinnumarkaði, höfðu einnig mikil áhrif á rekstrarkostnað sem skilaði sér í hærra vöruverði til verslana. Unnið var þétt með birgjum og samstarfsaðilum til að sporna við þessum áhrifum ásamt því að finna leiðir til hagræðingar. Mikil áhersla stjórnenda var á lækkun alls rekstrarkostnaðar í þessu umhverfi með ýmsum aðgerðum sem skýra meðal annars betri rekstrarniðurstöðu en áætlanir okkar gerðu ráð fyrir.
Árangurinn endurspeglar í okkar huga tryggð og ánægju með áherslur félagsins á nýliðnu ári. Magnaukning í sölu og auknar þjónustutekjur er sterk vísbending um að landsmenn og í auknum mæli erlendir ferðamenn treysti á þjónustu og vel miðað framboð af nauðsynjavörum um land allt. Þessum innviðum hlúum við vel að og höfum styrkt enn frekar á árinu.
Við erum meðvituð um að starfsemi, skipulag og uppbygging Festi snertir líf meginþorra landsmanna með einhverjum hætti yfir árið. Við mætum þeirri áskorun af ákveðinni auðmýkt og leggjum okkur fram um að veita sífellt betri þjónustu með sjálfbærari hætti án þess að missa sjónar á því grundvallarmarkamiði sem er að tryggja arðsaman rekstur.
Við sjáum til þess að viðskiptavinir komist frá einum stað til annars, á þeim orkugjafa sem þeir kjósa. Við tryggjum að viðskiptavinir okkar fái nauðsynjavörur fyrir heimili og rekstur fyrirtækja, nánast alla daga ársins, allt árið um kring, hvar og hvenær sem er. Við kynnum nýjungar og þægindi fyrir okkar viðskiptavinum sem einfalda lífið um leið og hagkvæmni er höfð að leiðarljósi. Markmið okkar er að vera traust fyrirtæki sem byggir á skilvirkum og heilbrigðum rekstri; viðskiptavinum, eigendum og starfsfólki til hagsbóta.
Hagnaður ársins 2023 nam 3.438 millj. kr. (2022: 4.082 millj. kr.) en mikil hækkun stýrivaxta hækkaði fjármagnsgjöld félagsins um 1.137 millj. kr. eða 47,2% milli ára. EBITDA spá félagsins var hækkuð tvisvar á árinu og nam rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og matsbreytingar 11.015 millj. kr. (2022: 10.020 millj. kr.) og hækkaði um 9,9% milli ára. Aukin umsvif hjá öllum dótturfélögum Festi skýra betri EBITDA afkomu, sérstaklega í dagvöruhluta samstæðunnar, þar sem veltan jókst mun meira en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Ánægja viðskiptavina endurspeglast í traustu viðskiptasambandi sem birtist okkur í endurteknum heimsóknum og kaupum en niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar segja sömuleiðis ákveðna sögu. Krónan hlaut hæstu einkunn í sínum flokki sjöunda árið í röð og var ekki marktækur munur á hæsta félaginu og ELKO á íslenskum raftækjamarkaði. Niðurstöðurnar styðja við okkar vegferð um að veita framúrskarandi þjónustu, bjóða upp á rétt vöruúrval á hagstæðu verði, hvort sem það er í gegnum starfsstöðvar okkar um allt land eða stafrænar lausnir.
Öll félög samstæðunnar leggja metnað í að vera eftirsóknarverðir vinnustaðir sem laða að og halda í hæft og traust starfsfólk. Áhersla er lögð á að hlúa vel að menningu og mannauði okkar þar sem jafnrétti, fræðsla, lýðheilsa og öryggi eru höfð í forgrunni. Innan Festi starfa 2.200 starfsmenn af 47 þjóðernum. Alltaf er leitast við að þjálfun nýs starfsfólks fari fram af fólki af sama þjóðerni. Öll félög bjóða sérstakan heilsufarspakka til starfsmanna með stuðning til heilsuræktar og aðgengi að sálfræðingum og öðru fagfólki. Þá hefur ELKO boðið sínu starfsfólki upp á svokallaðan menntapakka fyrst okkar félaga og hlaut Menntaverðlaun atvinnulífsins fyrir í byrjun árs 2024 sem við erum mjög stolt af. Þá erum við jafnframt mjög stolt af því að hafa fengið á árinu viðurkenningu FKA og Jafnvægisvogarinnar, sem er veitt þeim fyrirtækjum sem þykja skara fram úr í jafnréttismálum.
Nýir stjórnendur tóku við lykilstöðum innan félagsins á árinu: Ýmir Örn Finnbogason tók við sem framkvæmdastjóri N1, Óðinn Árnason sem framkvæmdastjóri Festi fasteigna og Eva Guðrún Torfadóttir var ráðin framkvæmdastjóri Bakkans Vöruhúss en hún hefur störf í byrjun apríl 2024.
Festi og rekstrarfélög eru meðvituð um áhrif starfsemi sinnar á umhverfið og leitast við að lágmarka neikvæð áhrif eins og mögulegt er. Samstæðan leggur m.a. áherslu á að stunda ábyrga auðlindanotkun, draga úr úrgangi og sóun, ásamt því að auka framboð á umhverfisvænum vörum og þjónustu. Sömuleiðis vinnum við að því að ná betur utan um óbeina losun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni (til viðbótar við beina losun) og draga úr henni, kortleggja og bregðast við sjálfbærniáhættu, bæta fræðslu til starfsmanna og hafa jákvæð áhrif á aðfangakeðjuna.
N1 ætlar sér að vera leiðandi í orkuskiptum á Íslandi og hefur fjárfest í uppbyggingu rafhleðslustöðva um land allt sem mun eflast enn frekar á komandi ári samhliða uppbyggingu Tesla á þjónustusvöðum N1. Jafnframt undirritaði N1 viljayfirlýsingu um samstarf við Landsvirkjun og Linde um að auka aðgengi að grænu vetni á Íslandi og heldur áfram að þjónusta tæplega 25.000 viðskiptavini með raforku. Þróun og uppbygging þjónustu heldur áfram á vel staðsettum stöðvum félagsins um land allt með nýju dælustýringarkerfi og fjölgun útsölustaða Ísey skyrs og Nesti. N1 appið hefur fengið góðar viðtökur, bæði við afgreiðslu rafhleðslu, en ekki síður fyrir dekkjaskipti og nú síðast dekkjaleigu sem er spennandi og umhverfisvænn kostur fyrir viðskiptavini okkar. N1 reisti á árinu eina stærstu og glæsilegustu bílaþjónustustöð N1 á Suðurnesjum; að Flugvöllum í Reykjanesbæ, en kvaddi um leið sögufræga stöð sína í Stóragerði þar sem nú hefst uppbygging íbúðahúsnæðis. Eldsneytisstöð N1 á Ægisíðu mun loka síðar á árinu þegar ný sjálfsafgreiðslustöð á Fiskislóð við Krónuna mun opna.
Krónan á eins og áður sagði ánægðustu viðskiptavinina 7. árið í röð, var valin besta íslenska vörumerkið á einstaklingsmarkaði af Brandr og vörumerki ársins í könnun Maskínu. Smekkleg endurmörkun Krónunnar hitti í mark hjá viðskiptavinum og sumarherferðin um íslenska sumarið fékk Lúðurinn á síðustu ÍMARK hátíð. Krónan á Granda í Reykjavík fékk yfirhalningu og enduropnaði þar glæsilega verslun í september sl. við einstaklega góðar undirtektir viðskiptavina. Skóflustunga var tekin að nýrri Krónuverslun á Fitjum í Reykjanesbæ sem mun opna árið 2025. Snjallverslun Krónunnar er í miklum blóma og hefur afgreiðslustöðum fjölgað á árinu til að bæta enn frekar þjónustu við landsbyggðina. Aldrei hafa fleiri notað Skannað og skundað og eru sjálfsafgreiðslulausnir Krónunnar nú nýttar við 77% af öllum afgreiðslum verslunarinnar.
ELKO fagnaði 25 ára rekstrarafmæli á árinu og voru skrifstofur fyrirtækisins fluttar úr Skógarlind í höfuðstöðvar Festi á Dalvegi í Kópavogi. Undir lok sumars opnaði ELKO glæsilega nýja komuverslun í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli og opnaði sömuleiðis á fyrirtækjaviðskipti í netverslun. Mikil vitundarvakning og árangur hefur náðst með átakinu „fáðu eitthvað fyrir ekkert“, þar sem ELKO kaupir notuð raftæki af viðskiptavinum sínum og kemur þeim áfram í hringrásarkerfinu. ELKO heldur áfram að styðja við uppgang rafíþrótta með öflugum mótum og forvarnarfræðslu m.a. í samstarfi við Rafíþróttasamtök Íslands (RÍSÍ).
Festi fasteignir tók töluverðum breytingum á árinu en nýr framkvæmdastjóri, Óðinn Árnason, var ráðinn og var framkvæmdadeild og öryggisdeild Festi færðar undir félagið. Jafnframt fékk félagið nýtt nafn í byrjun mars sl. og mun þekkjast sem Yrkir eignir héðan í frá. Framundan eru spennandi tímar hjá félaginu sem heldur utan um 93 þúsund fermetra af fasteignum ásamt framþróun lóða og uppbyggingu, viðhald og öryggismála. Þar liggja fjölmörg tækifæri.
Bakkinn vöruhótel er lykilgrunnstoð í rekstri rekstrarfélaganna, hjartað sem dælir súrefni til starfsstöðva um land allt. Eva Guðrún Torfadóttir var ráðin nýr framkvæmdastjóri Bakkans og tekur hún við í byrjun apríl nk. Liggur fyrir stefnumótunarvinna um framtíðarþróun og uppbyggingu Bakkans til að mæta þeim þörfum sem rekstrarfélögin gera kröfu um svo styrkja megi samkeppnishæfni þeirra og veita viðskiptavinum enn betri þjónustu.
Þann 13. júlí 2023 var undirritaður samningur um kaup á öllu hlutafé í Lyfju hf. sem var í kjölfarið samþykktur á hluthafafundi Festi í lok sumars. Beðið er eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins til að samruninn geti átt sér stað, en kaupin eru hluti af framtíðarsýn Festi um að nýta sem best innviði fyrirtækisins og bjóða upp á breitt vöruúrval nauðsynjavara á hagkvæmu verði um allt land. Samstæðan Festi er fjárhagslega sterkt félag, með sterka eiginfjárstöðu og í heild vel í stakk búið til að takast á við þau krefjandi verkefni sem framundan eru. Áfram verður lögð áhersla á skilvirkni og hagræðingu í rekstri, sem og aukið samstarf innan Festi til að lækka einingakostnað hjá samstæðunni í heild sem og vinna gegn hækkun vöruverðs.
Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð í krefjandi rekstrarumhverfi og þökkum það fyrst og fremst starfsfólki okkar um land allt sem sýnir einstakan metnað í störfum fyrir hönd félagsins og eigenda. Við þökkum einnig viðskiptavinum okkar tryggð við félagið og samfylgdina á árinu 2023.