Sjálfbærni

Festi er eignarhaldsfélag sem á og rekur leiðandi smásölufyrirtæki á íslenskum markaði sem þúsundir landsmanna heimsækja á hverjum degi. Í gegnum fjölbreyttan rekstur hefur félagið þannig marga snertifleti og fjölmörg tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Áhersla á sjálfbærni eykst stöðugt og er það ætlun félagsins að vera í hópi fremstu fyrirtækja á íslenskum markaði í þessum efnum. Trú stjórnenda er að aukin áhersla á sjálfbærni í rekstrinum skili auknum ávinningi til allra  og að margs kyns tækifæri séu falin í þeirri vegferð sem framundan er.

Þróun upplýsingagjafar á sviði sjálfbærni er hröð en fyrir árið 2023 tók gildi flokkunarreglugerð ESB sem snýr að upplýsingagjöf um sjálfbærni fyrir félög tengd almannahagsmunum sem og stór félög eins og skilgreind í lögum um ársreikninga. Tilgangur reglugerðarinnar er að skilgreina hvaða atvinnustarfsemi teljist vera umhverfislega sjálfbær og er henni ætlað að stuðla að auknu gegnsæi í sjálfbærniupplýsingagjöf. Festi er eitt margra stórra fyrirtækja á Íslandi sem er að feta sig áfram í þessu nýja landslagi en skýrslugjöf félagsins vegna flokkunarreglugerðarinnar er að finna í ársreikningi félagsins fyrir árið 2023.

Samhliða þróun upplýsingagjafar hefur orðnotkun einnig aðlagast til að ná betur utan um málaflokkinn. Það er því ekki einungis innihald sjálfbærniskýrslna Festi og rekstrarfélaga sem hefur tekið breytingum á þeim fjórum árum sem þær hafa verið útgefnar, heldur breyttist nafngift þeirra einnig í ár – úr samfélagsskýrslum í sjálfbærniskýrslur.

Stefna, markmið og árangur 2023

Framtíðarsýn félagsins í sjálfbærnimálum er skýr en leiðin þangað krefst að einhverju leyti breyttrar hugsunar og nýrra nálgana. Það er trú stjórnenda að sjálfbærni þurfi að vera einn af lykilþáttum í menningu samstæðunnar til að ná fram nauðsynlegum breytingum og hefur félagið lagt af stað í þá vegferð.

Sjálfbærnistefna

Sjálfbærnistefna Festi og rekstrarfélaga er vegvísir sem leggur grunn að sýn og stefnuáherslum samstæðunnar um að hafa sjálfbærni að leiðarljósi í ákvarðanatöku þegar kemur að framtíðarvexti hennar. Alþjóðlega viðurkennd viðmið Nasdaq um umhverfisþætti, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS) eru lögð til grundvallar stefnunni en stefnan styður einnig þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem Festi leggur áherslu á. Þau eru jafnrétti kynjanna (5), góð atvinna og hagvöxtur (8), aukinn jöfnuður (10), ábyrg neysla og framleiðsla (12) og aðgerðir í loftslagsmálum (13).

Stjórn og framkvæmdastjórn Festi samþykkja stefnuna og gildir hún fyrir öll félög samstæðunnar. Eigandi og ábyrgðaraðili hennar er forstjóri Festi. Stefnan er endurskoðuð árlega til að gæta þess að hún taki til mikilvægustu umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta sem eiga við um samstæðuna hverju sinni. Í framhaldi af endurskoðun ársins 2023 var skerpt á ýmsum liðum stefnunnar eins og áherslum fram á veginn. Nánar verður sagt frá þessu í köflunum um umhverfisþætti, félagslega þætti og stjórnarhætti.

Sjálfbærnimarkmið ársins 2023

Festi vinnur að því að auka gegnsæi í sjálfbærniupplýsingagjöf og sem liður í þeirri vegferð deilir félagið stöðu þeirra lykilmarkmiða sem sagt var frá í sjálfbærniskýrslu síðasta árs:

Staða lykilmarkmiða úr samfélagsskýrslu Festi 2023

Nánar verður farið yfir árangur í viðeigandi undirköflum um umhverfisþætti, félagslega þætti og stjórnarhætti hér á eftir. Yfirlit yfir sjálfbærnimarkmið ársins 2024 má finna í lok kaflans.

Annar árangur

Ýmiss annar árangur náðist á árinu, þar ber helst að nefna að:

  • Sjálfbærnimál voru færð nær yfirstjórnendum félagsins bæði með því að færa þau inn á skrifstofu forstjóra  og með því að gera sjálfbærniáhættu að sjálfstæðum áhættuflokki í  áhættumatsferli félagsins.
  • Þverfaglegt sjálfbærniráð var stofnað með fulltrúum allra félaga til að auka samstarf og deila þekkingu innan samstæðunnar. Verkefni sjálfbærniráðsins tengjast meðal annars vitundarvakningu og fræðslu starfsfólks.
  • Sjálfbærnivika var haldin í fyrsta sinn í nóvember þar sem áhersla var á umhverfismál.
  • Mikil undirbúningsvinna fór fram fyrir birtingu upplýsinga tengdum flokkunarreglugerð ESB (e. EU taxonomy) sem finna má í kaflanum um ófjárhagslegar upplýsingar í ársreikningi félagsins.

UFS mat Reitunar

Reitun hefur á hverju ári, síðustu fjögur ár, unnið skýrslu um UFS mat á Festi og fór síðasta mat fram um miðjan nóvember 2023. Tilgangurinn með matinu er að greina og meta hvernig Festi stendur sig í völdum UFS þáttum en kröfur Reitunnar aukast markvisst ár frá ári. Heildareinkunn Festi í síðasta mati var 76 stig sem er flokkur B2 en einkunnin hækkaði um einn punkt frá fyrra ári. Meðaltalseinkunn félaga á markaði var 72 stig af 100, sem er einnig flokkur B2.

Í skýrslu Reitunar var tekið fram að Festi ynni markvisst að því að innleiða sjálfbærnihugsun í alla starfsþætti samstæðunnar og virðist hafa metnað fyrir að ná þar árangri. Nýleg skref sem þóttu sérstaklega jákvæð í sjálfbærnivegferð Festi voru t.d. þau að opinberar sjálfbærniupplýsingar félagsins væru nú teknar út af þriðja aðila, að unnið væri að því að samþætta viðeigandi verkferla milli rekstrareininga, að aðkoma forstjóra, stjórnar og framkvæmdastjórnar að málaflokknum væri virk, að kaupaukakerfi næði nú til sjálfbærnimælikvarða og að starfandi væri sjálfbærninefnd sem fundar reglulega.

Sjálfbærniuppgjör Festi

Samstæðan birtir sjálfbærniuppgjör þar sem farið er yfir UFS mælikvarða í samræmi við leiðbeiningar Nasdaq frá 2020 um umhverfisþætti, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS). Leiðbeiningarnar byggja á ráðleggingum sem settar voru fram árið 2015 af Sameinuðu þjóðunum, samtökum um sjálfbærar kauphallir (Sustainable Stock Exchanges Initiative) og vinnuhópi hjá Alþjóðasamtökum kauphalla (World Federation of Exchange).

Samstæðan styðst við sjálfbærnihugbúnað frá Klöppum grænum lausnum við mælingar og umsjón ýmissa sjálfbærnigagna. Hugbúnaðurinn er jafnframt notaður til að útbúa sjálfbærniuppgjör samstæðunnar og er losunarbókhaldið gloppugreint og metið af sérfræðingum Klappa. Sjálfbærniuppgjörið nær yfir alla yfir- og undirflokka umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS) fyrir alla starfsemi samstæðunnar og byggir á rekstrarárinu 2023 (sjá yfir- og undirflokka úr UFS leiðbeiningum Nasdaq frá 2020 (e. ESG Reporting Guide) hér að neðan). Fyrri ár eru höfð til samanburðar en samanburðarupplýsingar geta breyst milli ára ef betri uppfærðum upplýsingum hefur verið streymt í gagnabanka Klappa.

Umhverfisþættir
E1.
Losun gróðurhúsalofttegunda
E2.
Losunarkræfni gróðurhúsalofttegunda
E3.
Orkunotkun
E4.
Orkukræfni
E5.
Samsetning orku
E6.
Vatnsnotkun
E7.
Umhverfisstarfsemi
E8.
Loftslagseftirlit/stjórn
E9.
Loftslagseftirlit/stjórnendur
E10.
Mildun loftslagsáhættu
Félagslegir þættir
S1.
Launahlutfall forstjóra
S2.
Launamunur kynja
S3.
Starfsmannavelta
S4.
Kynjafjölbreytni
S5.
Hlutfall tímabundinni starfskrafta
S6.
Aðgerðir gegn mismunun
S7.
Vinnuslysatíðni
S8.
Hnattræn heilsa og öryggi
S9.
Barna -og nauðungarvinna
S10.
Mannréttindi
Stjórnarhættir
G1.
Kynjahlutfall í stjórn
G2.
Óhæði stjórnar
G3.
Kaupaukar
G4.
Kjarasamningar
G5.
Siðareglur birgja
G6.
Siðferði og aðgerðir gegn spillingu
G7.
Persónuvernd
G8.
Sjálfbærniskýrsla
G9.
Starfsvenjur við upplýsingagjöf
G10.
Gögn tekin út / sannreynd af ytri aðila

Umhverfisþættir

Áherslur og árangur á árinu

Öll félög samstæðunnar eru meðvituð um áhrif starfseminnar á umhverfið og leitast við að lágmarka neikvæð áhrif hennar eins og mögulegt er. Félögin eru öll aðilar að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni og hafa undirritað Loftlagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum.

Samstæðan leggur áherslu á að:

  • Stunda ábyrga auðlindanotkun.
  • Kortleggja og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Leitast við að draga úr kaupum á umbúðamiklum vörum.
  • Minnka losun á úrgangi ásamt því að auka endurnýtingarhlutfall og flokkun.
  • Leitað leiða til að lágmarka sóun á vörum með takmarkaðan hillutíma.
  • Leitast við að hafa hlutfall umhverfisvænna vara og þjónustu til viðskiptavina sem hæst.
  • Kortleggja þær áhættur sem steðja að samstæðunni út frá loftslagsbreytingum og öðrum tengdum sjálfbærniþáttum.
  • Nýta kraftinn í stærð félagsins og reyna að hafa áhrif á aðfangakeðjuna til að stunda enn ábyrgari og sjálfbærari framleiðslu og viðskipti

Unnið er að því að formfesta sjálfstæðar umhverfisstefnur sem byggja á fyrrnefndum áhersluatriðum fyrir öll félögin, þar sem starfsemi þeirra, og þar af leiðandi umhverfisáhrif, eru ansi ólík. Krónan og ELKO hafa þegar birt slíkar stefnur, sem nálgast má á heimasíðum þeirra sem og í sjálfbærniskýrslum, en stefnt er að því að klára formlega skjalfestingu slíkra stefna fyrir Bakkann vöruhótel, Yrki eignir (áður Festi fasteignir) og N1 á árinu 2024.

Eitt lykilmarkmiðið í sjálfbærniskýrslu Festi á síðasta ári var að ljúka vinnu við TCFD (Task Force on Climate-Related Financial Disclosures)   áhættugreiningu samstæðunnar. Ákveðið var að samþætta þessa sjálfbærniáhættugreiningu við áhættumatsferli samstæðunnar en að lágmarki tvisvar á ári er mat á helstu áhættuþáttum hverrar rekstrareiningar uppfært með viðeigandi stjórnendum. Helstu niðurstöður og breytingar úr því áhættumati fara svo fyrir endurskoðunarnefnd Festi. Fram að þessu hafði sjálfbærniáhætta fallið undir rekstraráhættu, en nú var hún rædd sem sjálfstæður áhættuflokkur og notast við aðferðafræði TCFD til að greina viðeigandi sjálfbærniáhættur fyrir hverja rekstrareiningu. Ekki tókst að meta alla undirflokka fyrir allar rekstrareiningar en helstu áhættur voru metnar og verður vinnunni haldið áfram og kláruð á árinu 2024.

Ein helsta sjálfbærniáhættan í starfsemi samstæðunnar er vegna mögulegra umhverfisóhappa en þau eru sem betur fer afar fátíð. Árið 2019 varð alvarlegt umhverfisslys á Hofsósi þegar gat kom á eldsneytisgeymi N1 og nokkuð magn eldsneytis lak ofan í jarðveginn. Ráðist var í umfangsmiklar hreinsunaraðgerðir sem unnar voru í samræmi við fyrirmæli Umhverfisstofnunar sem skiluðu þeim árangri að mengun mælist óveruleg á staðnum. Samkvæmt fyrirmælum Umhverfisstofnunar þá er reglubundnum mælingum haldið áfram út árið 2025 og verður brugðist við ef breytingar verða. Annað lykilmarkmiðið fyrir umhverfisþætti úr sjálfbærniskýrslu Festi á síðasta ári var að engin umhverfisslys ættu sér stað árið 2023 og varð það raunin.

Fleiri lykilmarkmið tengdust umhverfisþáttum en eitt þeirra var að stilla upp kolefnishlutleysismarkmiði samstæðunnar í samræmi við Science Based Targets initiative (SBTi) . Rímaði það við texta úr eldri útgáfu sjálfbærnistefnunnar en þar var langtímamarkmið samstæðunnar, orðað svo að „samsteypan stefndi á að vera kolefnishlutlaus með aðgerðum í rekstri og kolefnisjöfnun í skógrækt með vottaðri kolefnisbindingu árið 2035 í samræmi við Science Based Targets initiative (SBTi).“

Farið var í vinnu á árinu við að undirbúa markmiðasetningu samstæðunnar í samræmi við SBTi en ákveðið var að samstæðan þyrfti að ná betur utan um bæði beina og óbeina heildarlosun áður en lengra væri haldið. Við uppfærslu sjálfbærnistefnunnar í lok árs 2023 var því ákveðið að breyta orðalagi til að vísa ekki í aðferðafræði eða samtök sem ekki er nú þegar byrjuð vinna með eða lokaákvörðun um að gera, hafa markmiðið skýrara og í takt við langtímamarkmið um kolefnishlutlaust Ísland. Uppfært markmið sjálfbærnistefnunnar er því að „samstæðan stefnir á að vera með nettólosun núll (e. net-zero emissions) árið 2040.“

Síðasta lykilmarkmiðið í   sjálfbærniskýrslu Festi 2022 tengt umhverfisþáttum varðaði nýskógræktarverkefni félagsins sem miðar áfram samkvæmt áætlun og er stefnt að því að verkefnið verði vottað og skráð í Loftslagsskrá Íslands síðar á árinu þegar gróðursetningu er lokið. Nánar má lesa um verkefnið og stöðu þess í lok þessa undirkafla um umhverfisþætti.

Mæld losun gróðurhúsalofttegunda jókst umtalsvert milli ára þar sem félagið náði í fyrsta sinn utan um mikilvæga losunarflokka, bæði hvað varðar beina og óbeina losun frá starfseminni. Var það mikilvægt skref til að ná betri heildarmynd á losun félagsins og nauðsynlegur undirbúningur til að hægt sé að hefja vinnu við að teikna upp aðgerðaáætlun um hvernig skuli draga markvisst úr losun samstæðunnar.

Umhverfisþættir í sjálfbærniuppgjöri

Í sjálfbærniuppgjöri samstæðunnar má finna alla mælikvarða fyrir umhverfisþætti skv. UFS leiðbeiningum Nasdaq (E1-E10) en hér á eftir er fjallað stuttlega um atriði sem þótti vert að skýra frekar.

E1. og E5. Losun gróðurhúsalofttegunda og samsetning orku

Heildarlosun samstæðunnar er reiknuð í samræmi við meginreglur Greenhouse Gas Protocol aðferðafræðinnar með hugbúnaði frá Klöppum grænum lausnum. Umtalsverð hækkun varð á losun milli ára bæði í umfangi 1 og umfangi 3.

Umfang 1

Aukning á mældri losun í umfangi 1, þ.e. beinni losun frá starfsemi samstæðunnar, má rekja að öllu leyti til þess að í fyrsta skipti náðist að taka saman upplýsingar um allar áfyllingar á kælimiðla samstæðunnar (ýmist vegna lekalosunar eða uppsetningar á nýjum kælum). Árið 2022 var fyrsta árið sem kælimiðlar voru teknir inn í sjálfbærnibókhaldið en í ljós kom að ekki hefði náðst utan um nema hluta upplýsinganna. Starfsemi Krónunnar krefst mikils magn kælimiðla en jafnframt eru kælar á fjölmörgum þjónustustöðvum N1. Algengast er að kælimiðlar séu knúnir áfram af F-gasi (freoni) en losunarstuðull þeirra er ca. 3.900x hærri en losunarstuðull CO2 (koltvísýrings) kæla og geta því fá kílógrömm losunar af F-gösum valdið miklu tjóni. Til að draga úr áhættu og takmarka losun gróðurhúsalofttegunda er verið að skipta F-gasa kælikerfum samstæðunnar út fyrir CO2 kælikerfi. Á síðasta ári fór hlutfall CO2 kæla Krónunnar úr 49% í 53% og er stefnt að því að hlutfallið hækki í 58% fyrir árið 2024.

Aðrir losunarþættir í umfangi 1 eru t.a.m. eldsneytisnotkun farartækja, en þar er samstæðan byrjuð að sjá örlítinn samdrátt milli ára, enda eru aðeins keyptir inn umhverfisvænni bílar (rafmagns- eða hybridbílar) nema sérstök þörf sé á öðru (t.d. fyrir heimsendingar Krónunnar úti á landi).

Umfang 2 og samsetning orku

Til umfangs 2 telst óbein losun tengd rafmagni og hita fyrir eigin not. Starfsstöðvar samstæðunnar eru tæplega tvö hundruð og hefur þeim farið fjölgandi gegnum árin. Síðastliðin ár hefur félagið unnið að því að velja umhverfisvænni kosti til að draga úr notkun á rafmagni og vatni eftir eðli starfseminnar á hverjum stað og heldur sú vegferð áfram. Ljóst er að þessar aðgerðir skila árangri þar sem losun samstæðunnar vegna rafmagnsnotkunar hefur dregist örlítið saman milli ára, þrátt fyrir að á sama tíma hafi verið aukning í heildarfjölda fermetra hjá samstæðunni.

Á Íslandi er framleidd 100% græn raforka en árið 2023 var fyrsta árið sem framleiðendur gefa einungis út upprunavottorð um 100% græna raforku gegn greiðslu. Héðan í frá getur því losun fyrirtækja vegna raforkunotkunar verið mun hærri þegar horft er út frá markaðsforsendum (e. market based) en út frá staðsetningu (e. location based) hjá þeim íslensku fyrirtækjum sem kjósa að kaupa ekki upprunavottorð. Öll félögin keyptu upprunavottorð fyrir raforkunotkun sína árið 2023 og getur því talið fram 100% græna raforku út frá báðum mælikvörðum. Stjórnendur munu meta á árinu 2024 hvort sama leið verði farin fram á veginn, þ.e. að kaupa upprunaábyrgðir þrátt fyrir að notuð sé 100% græn raforka.

Orkusamsetning samstæðunnar er því þannig fyrir árið 2023, að endurnýjanlegir orkugjafar eru 96,7% en jarðefnaeldsneyti vegna bifreiðanotkunar 3,3%.

Umfang 3

Sú mikla aukning sem varð á mældri losun samstæðunnar í umfangi 3 milli ára, þ.e. óbeinni losun, skýrist af því að í fyrsta sinn var náð utan um undirflokkinn, notkun seldrar vöru, en þar er tekin saman öll losun sem verður þegar eldsneyti selt af N1 er brennt af viðskiptavinum. Óbein losun í þessum flokki nær utan um 99% af heildarlosun samstæðunnar en hingað til hafði einungis verið náð utan um flokkana eldsneytis- og orkutengd starfsemi, úrgang frá rekstri og hluta af viðskiptaferðum. Á meðan eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti helst jafn mikil og raun ber vitni í íslensku samfélagi er ólíklegt að mikill samdráttur verði í losun í þessum flokki. Félagið lítur svo á að N1 skuli vera leiðandi í að flýta orkuskiptum þjóðarinnar, byggja upp net hraðhleðslustöðva um allt land og vinna með atvinnulífinu í átt að lausnum til að ýta eftirspurninni í umhverfisvænni orkugjafa sem allra fyrst.

Mæld losun vegna flugferða í tengslum við viðskiptaferðir samstæðunnar dróst saman milli ára en í ljósi þess að aðeins náðist utan um rúmlega 85% flugferða í ár (m.v. 100% í fyrra) er sá samdráttur aðeins ofmetinn. Farið verður í að bæta ferla innanhúss til að tryggja að upplýsingar um öll flug fylgi uppgjöri næsta árs.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna úrgangs frá rekstri dróst saman milli ára sem var ánægjulegt. Magn úrgangs frá rekstri var nánast óbreytt milli ára þrátt fyrir aukin umsvif félagsins og samdráttur var á magni sorps sem fór í urðun eða þurfti að farga. Þá hækkaði heildarhlutfall flokkaðs úrgangs hjá samstæðunni úr 72,8% í 77,5% og endurvinnsluhlutfall hennar fór úr 66,5% í 72,8%. Markmið samstæðunnar er að ná flokkunarhlutfallinu yfir 90% fyrir árið 2030.

Kolefnisjöfnun með keyptum kolefniseiningum

Fram að þessu hefur samstæðan keypt kolefniseiningar á móti allri mældri losun gróðurhúsalofttegunda. Mæld losun er ekki alltaf sú sama og raunveruleg heildarlosun og nú þegar hefur tekist að mæla mun stærra hlutfall af losun ársins þá mun samstæðan þurfa að taka aðra nálgun á sína kolefnisjöfnun en áður. Í þetta sinn voru keyptar kolefniseiningar í vottuðum verkefnum til móts við beina losun ársins (umfang 1 og 2) og eins voru keyptar einingar í óvottuðum verkefnum sem styrkur til kolefnisverkefna á Íslandi og erlendis. Því til viðbótar keyptu ELKO og Krónan    kolefniseiningar á móti sinni mældu óbeinu losun (umfang 3). Samtals voru keyptar 4.233 kolefniseiningar í þrenns konar verkefnum:

  • 2.435 vottaðar kolefniseiningar í Gold standard vindorkuverkefninu Elmali Wind Power Plant í Tyrklandi, árgerð 2020 í verkefni nr. GS4442. Frekari upplýsingar hér
  • 1.583 óvottaðar einingar frá Kolviði í til að stuðla að kolefnishlutleysi Íslands. Frekari upplýsingar um skógræktarverkefni hjá Kolviði má finna hér
  • 215 óvottaðar einingar frá fyrirtækinu SoGreen en verkefni þeirra snýr að því að mennta og efla stúlkur í fátækum ríkjum og styður þannig samtímis við félagslega þætti og umhverfisþætti. Frekari upplýsingar um verkefnið má finna hér

Til viðbótar við kaup á kolefniseiningum mun samstæðan hefja vinnu við að útbúa aðgerðaáætlun um hvernig draga megi markvisst úr beinni og óbeinni losun samstæðunnar og fjárfesta í aðgerðum sem geta stuðlað að hraðari orkuskiptum eða dregið úr losun.

Verkefni í vottaðri nýskógrækt

Árið 2022 hóf Festi verkefni í vottaðri nýskógrækt á landi félagsins að Fjarðarhorni í Hrútafirði en verkefnið felst í því að gróðursetja samtals um 450 þúsund trjáplöntur á 200 hektara eignarlandi Festi. Í tengslum við verkefnið varð Festi fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að skuldbinda sig til að skrá kolefnisbindingu í Loftslagsskrá Íslands samkvæmt kröfum gæðakerfis Skógarkolefnis. Þetta var staðfest með undirritun verksamnings við Loftslagsskrá Íslands og Skóg og Land (áður Skógræktin). Kolefnisbinding með skógrækt hefur gefið góða raun og hefur virðisaukandi afleiðingar. Með þessu móti stefnir Festi ekki bara að uppbyggingu skóga heldur einnig að eflingu atvinnustigs á þeim svæðum þar sem nýskógrækt stendur til. Skógunum er jafnframt ætlað að hvetja til hreyfingar og útivistar með bekkjum, borðum og aðstöðu til útivistar fyrir landsmenn alla.

Helstu áfangar verkefnisins 2023-2024:

  • Jarðvinnsluvar lokið að fullu sumarið 2023.
  • Slóðagerð var lokið að mestu sumarið 2023 en einhverjar betrumbætur verða gerðar 2024.
  • Á árunum 2022 og 2023 voru samtals um 300.000 plöntur gróðursettar og er áætlað að 120.000 plöntur verði gróðursettar 2024. Eftir það verða gróðursetningar í formi íbóta.

Að gróðursetningu lokinni er miðað við að trjáplönturnar muni þurfa um 5-10 ár til að ná nægum vexti áður en farið verður í að meta og skrá kolefnisbindingu. Þegar þangað er komið verður binding kolefniseininga á hverjum tíma staðfest og vottuð af óháðum aðila. Þannig verður mögulegt að virkja einingarnar og telja á móti losun samstæðunnar. Áætlað er að á næstu 50 árum eftir lok framkvæmda muni kolefnisbinding Festi tengd þessu verkefni nema samtals um 70.000 tonnum af CO2.

Félagslegir þættir

Áherslur og árangur á árinu

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir öll félög samstæðunnar að vera eftirsóknarverðir vinnustaðir, hvert á sínu sviði, sem laða að og halda í hæft og traust starfsfólk. Stefnuáherslur stjórnenda í því sambandi miða að eftirfarandi:

  • Stuðla að jafnrétti á vinnustað.
  • Styðja stjórnendur og starfsfólk til að tileinka sér málefnaleg og sanngjörn samskipti og halda reglulega fundi sín á milli til að ræða ánægju sem og framgang í starfi.
  • Taka tillit til ólíkra sjónarmiða og leyfa hæfileikum hvers og eins að njóta sín.
  • Líða ekki hvers kyns einelti, ofbeldi eða áreitni og grípa til skilgreindrar aðgerðaáætlunar þegar þess gerist þörf.
  • Kappkosta að tryggja ánægju, öryggi og vellíðan starfsfólks með góðum aðbúnaði á vinnustað ásamt reglulegri fræðslu og þjálfun.

Félögin eru öll jafnlaunavottuð samkvæmt ÍST 85:2015 og með skýra mannauðsstefnu, jafnréttisstefnu og jafnlaunastefnu en nálgast má stefnurnar sem og aðrar stefnur samstæðunnar á heimasíðu Festi. Félagið hefur náð góðum árangri í að jafna kynjahlutfall starfsfólks, sérstaklega í efra starfsmannalagi og fengu bæði Festi og ELKO afhenta Jafnvægisvog FKA fyrir jafnvægi í hlutfalli kynja í efsta lagi stjórnunar.

Vinnustaðagreiningar eru framkvæmdar árlega til að mæla líðan á vinnustað þar sem niðurstöður eru rýndar með stjórnendum og starfsfólki, bornar saman við markmið sem og niðurstöður síðustu ára og gripið til aðgerða þar sem við á. Í vinnustaðagreiningu samstæðunnar fyrir árið 2023 mældist heildaránægja 4,01 sem er lækkun um 0,07 frá árinu áður en hæsta mögulega einkunn er 5,0 og þykir allt yfir 4 almennt vera góð niðurstaða. Félagið hefur skilgreint úrbótaverkefni út frá síðustu niðurstöðum í von um að sjá hækkun í næstu mælingu.

Hjá Festi er mikið lagt upp úr velferð starfsfólks auk þess að stuðla að heilbrigðu líferni og jöfnum tækifærum. Stutt er við velferð starfsfólks með velferðarpakka sem felur í sér faglega velferðarþjónustu og styrki með það að markmiði að auka lífsgæði starfsfólks og stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu.

Hjá samstæðunni er rekin núll-slysastefna sem felur í sér að engin slys eru ásættanleg. Annað þeirra lykilmarkmiða fyrir árið tengt félagslegum þáttum úr sjálfbærniskýrslu Festi 2022, sneri að því að engin slys yrðu á fólki árið 2023. Slysum hjá samstæðunni fækkaði um 11% milli ára, þ.e. fóru úr 36 í 32 en helmingur slysanna varð hjá N1, enda má segja að slysahættan sé mest hjá því félagi sökum eðli starfseminnar. Þess má geta að N1 mun endurskoða ferla tengda öryggismálum á árinu 2024 í von um að hægt sé að draga úr líkum á slysum hjá starfsfólki.

Hitt lykilmarkmiðið tengt félagslegum þáttum fyrir 2023 var að launamunur kynjanna væri ekki yfir 1,5% en það hefur verið árlegt markmið hjá samstæðunni. Niðurstaða launagreiningar fyrir árið 2023 staðfesti að launamunur hefði verið undir 1,5% hjá öllum rekstrarfélögum samstæðunnar, fjórða árið í röð.

Festi og rekstrarfélög styðja við og virða vernd alþjóðlegra mannréttinda í samræmi við innlend lög sem og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna í allri starfsemi félagsins. Samstæðan virðir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafnar með öllu mannréttindabrotum svo sem nauðungar- og þrælkunarvinnu, þar með talinni barnaþrælkun. Í lok árs 2023 innleiddi samstæðan siðareglur birgja og þjónustuaðila sem gera kröfur Festi skýrar varðandi sjálfbærnimál, þ.á.m. mannréttindi og mun þeirri vinnu verða fylgt eftir á árinu 2024. Samstæðan mun jafnframt fylgjast vel með nýjum kröfum í Evrópulöggjöf sem snúa að upplýsingagjöf á sviði mannréttinda og fara í vinnu til að standast þær kröfur ef þörf verður á.

“Það er gríðarlega mikilvægt fyrir öll félög samstæðunnar að vera eftirsóknarverðir vinnustaðir, hvert á sínu sviði, sem laða að og halda í hæft og traust starfsfólk.”

Félagslegir þættir í sjálfbærniuppgjöri

Í sjálfbærniuppgjöri samstæðunnar má finna alla mælikvarða fyrir félagslega þætti skv. UFS leiðbeiningum Nasdaq (S1-S10) en hér á eftir er fjallað stuttlega um atriði sem þótti vert að skýra frekar.

S2.  Launamunur kynjanna

Hjá Festi er lögð áhersla á að starfsfólki, sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf, sé ekki mismunað í launum eða kjörum eftir kyni eða öðrum þáttum. Hér að neðan má sjá niðurstöður jafnlaunavottunar frá 2021, viðhaldsvottunar fyrir 2022 og launagreiningar fyrir 2023 (sem allar eru samanburðarhæfar) en beðið var eftir formlegri vottun fyrir gögn ársins 2023 þegar þessi skýrsla var birt. Launamunur kynjanna hefur ekki farið yfir 1,5% hjá neinu rekstrarfélagi samstæðunnar fjögur ár í röð.

S3.  Starfsmannavelta

Stöðugildi hjá samstæðunni að meðaltali umreiknuð í heilsársstörf voru 1.352  árið 2023 sem er hækkun um 83 frá fyrra ári. Hjá samstæðunni starfar jafnframt fólk af 47 þjóðernum. Starfsmannavelta endurspeglar fjölbreytta starfsemi félaganna og árstímabundið álag með aukinni þörf fyrir starfsfólk auk þess sem starfsstöðvar Festi eru oft fyrsti starfsvettvangur fólks. Þá má einnig geta að nýr forstjóri Festi samstæðunnar, Ásta Sigríður Fjeldsted, gerði ýmsar breytingar á lykilstjórnendateymi samstæðunnar á árinu 2023 sem hafði áhrif á hlutfall starfsmannaveltu, sérstaklega hjá móðurfélaginu og Bakkanum vöruhóteli. Búist er við því að starfsmannavelta verði minni innan þessara félaga árið 2024. Starfsmannavelta fyrir samstæðuna alla var um 12%, óbreytt frá fyrra ári en niðurbrot niður á félag má sjá í töflu hér að neðan.

Stjórnarhættir

Áherslur og árangur á árinu

Festi er hlutafélag skráð í Kauphöll Íslands og fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, sem eru gefnar út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq OMX Iceland hf. og Samtökum atvinnulífsins auk þess sem það gerir ársreikning samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS).

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum lögmætra hluthafafunda, innan þeirra takmarka sem samþykktir Festi og landslög setja. Hluthafar fara með ákvörðunarvald sitt á hluthafafundum. Stjórn Festi fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda og ber meginábyrgð á rekstri þess. Samskipti stjórnar og hluthafa fara fram á hluthafafundum. Stjórnarmenn í félaginu eru sjálfstæðir í störfum sínum og taka ekki við fyrirmælum frá hluthöfum félagsins eða öðrum hagsmunaaðilum. Forstjóri er ekki stjórnarmaður en hefur setu-, umræðu- og tillögurétt á stjórnarfundum. Hann stýrir ekki nefndum á vegum stjórnar. Hann ber ábyrgð á og annast daglegan rekstur félagsins í samræmi við stefnu, starfsreglur og fyrirmæli stjórnar. Frekari upplýsingar um stjórnarhætti félagsins má finna í kaflanum Stjórnarhættir í þessari árs- og sjálfbærniskýrslu eða á vefsíðu Festi.

Festi og rekstrarfélög eru meðvituð um þau áhrif sem þau hafa á samfélagið allt með starfsemi sinni og leggja mikla áherslu á að stunda heilbrigða viðskiptahætti í hvívetna. Með góðum stjórnarháttum leggja Festi og rekstrarfélög grunn að traustum samskiptum við hagaðila og stuðla að hlutlægni, heilindum, gegnsæi og ábyrgð í stjórnun. Festi fékk staðfestingu Creditinfo sem Framúrskarandi fyrirtæki árið 2023.

Siðareglur Festi gilda um alla starfsemi samstæðunnar, allt starfsfólk sem og þá verktaka sem sinna verkefnum fyrir félögin. Eitt lykilverkefnið tengt stjórnarháttum í sjálfbærniskýrslu Festi á síðasta ári var að kynna siðareglurnar sérstaklega fyrir starfsfólki en því verkefni var frestað til þessa árs sökum mannabreytinga hjá Festi.

Annað lykilmarkmið tengt stjórnarháttum fyrir árið 2023 tengdist innkaupastefnu og birgjamati á skilgreindum birgjum. Í ljósi ólíkrar starfsemi félaganna var ákveðið að hafa sjálfstæðar innkaupastefnur fyrir hvert félag en í lok árs voru siðareglur birgja og þjónustuaðila innleiddar fyrir alla samstæðuna. Búið er að gera birgjamat sem prófað hefur verið á völdum birgjum en næstu skref eru að kynna nýju reglurnar og framkvæma matið á a.m.k. 25% af birgjum samstæðunnar. Með þessari vinnu vonast félagið til að geta haft jákvæð áhrif á aðfangakeðjuna til að stunda ábyrgari og sjálfbærari framleiðslu og viðskipti, stuðla að heilbrigðum viðskiptaháttum og vinna gegn hvers kyns spillingu.

Festi og rekstrarfélög starfa í samræmi við útgefin starfs- og rekstrarleyfi en að auki er víða unnið eftir vottuðum stöðlum s.s. Svansvottun Krónuverslana, Michelin vottun hjólbarðaverkstæða, Exxon Mobil vottun í vöruhúsi Bakkans í Klettagörðum, ISO 14001 vottun þjónustustöðva N1 auk þess sem öll félögin eru jafnlaunavottuð. Þriðja lykilmarkmiðið tengt stjórnarháttum úr sjálfbærniskýrslu 2022 var að úttektir á vottunum samstæðunnar væru frávikalausar. Ekki er þörf á því að framkvæma allar vottanir árlega og vildi svo til að engin vottun samstæðunnar fór í ytri úttekt á árinu. Hér hafði áhrif að N1 ákvað að fara í heildstæða endurskoðun á sínum vottunum til að meta hvar þær raunverulega bæti við kröfum á þær sem fyrir eru tengt starfsleyfum félagsins og hvar þær komi til með að styrkja starfshætti félagsins sem mest. Er því ekki hægt að gefa niðurstöðu fyrir þetta markmið.

Árlega leitar fjöldi félagasamtaka, stofnana og einstaklinga til samstæðunnar um stuðning við góð málefni. ELKO, Krónan og N1 hafa sett sér styrktarstefnur þar sem áhersla er lögð á að styðja fyrirfram valin málefni en greint er nánar frá styrkjum og úthlutunum í sjálfbærniskýrslum þeirra. Á árinu 2024 verður jafnframt sett styrktarstefna fyrir Festi en hingað til hefur félagið styrkt fjölmörg verkefni sem það taldi brýn og til hagsbóta fyrir samfélagið á hverjum tíma. Þess má geta að Festi styrkir ekki stjórnmálaflokka.

“Með góðum stjórnarháttum leggja Festi og rekstrarfélög grunn að traustum samskiptum við hagaðila og stuðla að hlutlægni, heilindum, gegnsæi og ábyrgð í stjórnun.”

Stjórnarhættir í sjálfbærniuppgjöri

Í sjálfbærniuppgjöri samstæðunnar má finna alla mælikvarða fyrir stjórnarhætti skv. UFS leiðbeiningum Nasdaq (G1-G10) en hér á eftir er fjallað stuttlega um atriði sem þótti vert að skýra frekar.

G3. Kaupaukar

Í starfskjarastefnu er heimild til kaupauka í samræmi við 7. Gr.: Breytileg starfskjör – kaupaukar. Kaupaukaáætlunin skal innihalda fyrirfram skilgreind og mælanleg fjárhags- og ófjárhagsleg árangursviðmið en árangursviðmið lykilstjórnenda eru blanda af þessum þáttum. Á árinu 2023 voru í fyrsta sinn sett inn ófjárhagsleg markmið tengd sjálfbærni og verður það aftur gert á þessu ári.

G10.  Gögn tekin út/sannreynd af ytri aðila

Sjálfbærniskýrsla Festi fyrir árið 2023 er nú annað árið í röð, könnuð af Deloitte ehf., sem veitir álit með takmarkaðri vissu á upplýsingagjöf samstæðunnar um sjálfbærni. Ekki er um lagalega kröfu að ræða en með þessu fær Festi úttekt og staðfestingu á áreiðanleika gagna og upplýsinga sem tengjast sjálfbærniframmistöðu samstæðunnar. Staðfesting Deloitte mun einnig undirbúa samstæðuna fyrir tilvonandi CSRD -tilskipun Evrópusambandsins (e. Corporate Sustainability Reporting Directive) um sjálfbærniupplýsingagjöf stórra og/eða skráðra fyrirtækja sem gert er ráð fyrir að taki gildi á Íslandi á næstu tveimur árum. Með henni verður gerð lagaleg krafa um staðfestingu óháðs þriðja aðila.

Sjálfbærnimarkmið ársins 2024

Langtímamarkmið félagsins er að vera leiðandi fyrirtæki á íslenskum markaði þegar kemur að sjálfbærni. Trú stjórnenda er að innan Festi sé unnið af heilindum í þessa átt og ef félaginu tekst að innvikla sjálfbæra hugsun í menningu þess þá muni það takast.

Félagið hefur skilgreint eftirfarandi lykilmarkmið í sjálfbærni til næstu ára: