Starfsemi Festi
Festi á og rekur fyrirtæki sem eru leiðandi á hvert á sínum markaði; matvöru-, raftækja-, eldsneytis-, raforkusölu- og þjónustustöðvamarkaði. Fasteigna- og vöruhúsarekstur og kaup og sala verðbréfa er einnig hluti af starfsemi samstæðunnar.
Móðurfélagið Festi á dótturfélögin Krónuna sem rekur matvöruverslanir undir merkjum Krónunnar, N1 sem rekur þjónustustöðvar eldsneytis- og rafmagnssölu og ýmsa þjónustu tengda smur- og bifreiðaþjónustu, ELKO sem er stærsta raftækjaverslun landsins, Festi fasteignir, sem nú hefur fengið nafnið Yrkir sem á og rekur fasteignir samstæðunnar og Bakkann vöruhótel sem sérhæfir sig í vöruhúsaþjónustu og dreifingu.
Meginhlutverk móðurfélagsins gagnvart rekstrarfélögunum er þríþætt:
- Stýra fjárfestingum
- Styðja við verðmætasköpun
- Skapa ný tækifæri
Markaðs- og viðhorfskannanir sýna að ELKO er áfram þekktasta og stærsta raftækjaverslun landsins. Verslanir félagsins eru sex talsins, þrjár á höfuðborgarsvæðinu, ein á Akureyri og tvær á Keflavíkurflugvelli. Viðskiptavinum vefverslunar fjölgar stöðugt en með fjölbreyttum afhendingarmátum þjónustar vefverslunin elko.is viðskiptavini um land allt.
Sem fyrr kappkostar ELKO að bjóða þekktustu vörumerkin og vinsælustu vörurnar á raftækjamarkaði á besta fáanlegu verði hér á landi sem endurspeglast í loforði félagsins: „Það sem skiptir þig máli skiptir okkur máli.“
Framúrskarandi þjónusta, stöðug framþróun og góð fyrirtækjamenning lýsa vel daglegum áherslum stjórnenda. Markmið félagsins eru að hjálpa öllum með ótrúlegri tækni að gera lífið betra, þægilegra og ánægjulegra. Í þeim efnum má nefna breitt vöruúrval, verðöryggi, verðsögu, viðbótartryggingu, fjölbreytta fjármögnunarmöguleika, gjafakort án gildistíma og allt að 30 daga skilarétt sem lengdur er í kringum jól og fermingar til að mæta betur þörfum viðskiptavina. Allt eru þetta vel aðgreinandi þjónustuþættir og endurspegla áherslu félagsins á að byggja upp farsælt langtímasamband við viðskiptavini.
ELKO er með sérleyfissamning við norska félagið Elkjøp sem rekur um 400 verslanir á Norðurlöndunum. Elkjøp er í eigu breska raftækjarisans Currys PLC sem rekur samtals um 1.600 verslanir í Bretlandi, Írlandi og Norður-Evrópu. Með sameiginlegum innkaupum nást betri kjör á þekktum vörumerkjum raftækja og njóta viðskiptavinir ELKO góðs af því.
Rekstur ársins
1,3 millj.
heimsókna í verslanir ELKO á árinu
83%
landsmanna heimsóttu elko.is á árinu
94%
ánægja viðskiptavina með þjónustu ELKO
5.400
raftæki komið fyrir í hringrásarhagkerfinu
Eitt stærsta verkefni ársins er algjör endurnýjun á verslun ELKO í Lindum. Verslunin verður opnuð með nýju útliti og nýjum þjónustuþáttum seinni hluta ársins. Fjölmörg önnur verkefni sem tengjast framúrskarandi þjónustu fara í innleiðingu á árinu og má þar helst nefna innleiðingu á viðskiptavinaupplýsingakerfi, staðsetningarkerfi í verslunum, tínslu vefpantana úr verslun, rekstur á sjálfsölum og margt fleira.
Helstu markmið ársins í upplifun og ánægju viðskiptavina er að gera betur en á síðasta ári þar sem ELKO varð í þriðja sæti allra smásöluverslana. Jafnframt verður lögð áhersla á að gera betur gagnvart starfsfólki og viðhalda eða hækka starfsánægju, sem nú þegar er með því hæsta sem gerist á smásölumarkaði. Þá verður mat á helstu birgjum fullklárað svo að tryggt verði að samstarfsaðilar uppfylli þær kröfur sem félagið gerir til þeirra.
Áfram verður lögð rík áhersla á að leita leiða til að auka þjónustu við viðskiptavini með nýjum lausnum og breiðu vöru- og þjónustuframboði. Í samskiptum við viðskiptavini eru gegnsæi, traust og góð þjónusta höfð að leiðarljósi og er það trú stjórnenda að loforð fyrirtækisins séu grundvöllurinn að góðum rekstri, áframhaldandi vexti og góðu langtímasambandi við viðskiptavini.
Krónan er lágvöruverðsverslun sem fagnar 23 árum í smásölu á Íslandi. Markaðshlutdeild hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum með breyttri nálgun í mörkun, markaðssetningu, upplifun í verslunum og áherslu á sjálfbærni, hollustu, þægindi og síðast en ekki síst lágt og samkeppnishæft vöruverð. Krónan fékk Svansvottun árið 2020 og er eina Svansvottaða dagvöruverslunin á Íslandi í dag. Krónan fer sínar eigin leiðir til að einfalda líf viðskiptavina og vill ryðja brautina í þróun matvöruverslana á Íslandi. Framtíðarsýnin er að gera heilsusamlegan og sjálfbæran lífstíl að daglegum venjum allra.
Farið var í endurmörkun á vörumerki Krónunnar á árinu. Það getur verið áskorun að standa fyrir lágt verð og á sama tíma bjóða breitt úrval gæðavara, jákvæða upplifun og góða þjónustu. Með breytingunni var þetta haft að leiðarljósi ásamt því að halda í upprunann, lágvöruverðsverslunina. Við teljum að þetta hafi tekist og vörumerkið tali nú betur til okkar markhóps.
Starfsfólkið er lykillinn að velgengni félagsins og er mikið lagt upp úr samheldni og jákvæðu starfsumhverfi þar sem fjölbreytileika er fagnað. Íslenskt hugvit keyrir áfram nýsköpun, en tækni- og sjálfbærnilausnir eru þróaðar með öflugu teymi þar sem viðskiptavinurinn og upplifun hans er í fyrirrúmi. Þetta hefur skapað sérstöðu fyrir Krónuna á markaðnum eins og mælingar sýna. Krónan þykir nútímalegri, umhverfisvænni og framsæknari en aðrar matvöruverslanir samkvæmt mælingum Vörumerkjavísitölu Brandr. Krónan mældist einnig með ánægðustu viðskiptavinina á matvörumarkaði samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni, sjöunda árið í röð.
Rekstur ársins
10%
Íslendinga versluðu í Snjallverslun Krónunnar 2023
24 ár
í smásölu á dagvörumarkaði
Svansvottun
Eina svansvottaða matvöruverslunin á Íslandi
7 ár í röð
ánægðustu viðskiptavinirnir á matvörumarkaði
Gríðarlegur vöxtur hefur einkennt síðustu ár og heldur Krónan áfram að aðgreina sig frekar frá öðrum á matvörumarkaði með gildum sem neytendur leita sífellt meira eftir. Krónan horfir til framtíðar og er framsækin og óhrædd við að prófa sig áfram með nýjungar. Mikil áhersla er lögð á íslenskt hugvit og nýsköpun til að bæta jákvæða upplifun viðskiptavina.
Snjallar lausnir, allt frá vefverslun og appi yfir í umhverfisvænar lausnir sem hjálpa viðskiptavinum að lifa sjálfbærum lífsstíl, verða áfram í algjörum forgangi. Stefnt er að enn frekari sókn í heimsendingum á landsbyggðinni og áframhaldandi þróun á vef og appi Krónunnar. Lausnin Skannað og skundað hefur slegið í gegn og verður áfram lögð áhersla á að fá fleiri notendur til að nýta sér þessa frábæru lausn.
Mikil áhersla er lögð á fræðslu og þjálfun starfsfólks til að upplifun viðskiptavina sé eins óháð því hvar verslað er. Aukin skilvirkni er nauðsynleg til árangurs og eru mörg verkefni framundan til að bæta ferla og auka sjálfvirknivæðingu til framtíðar. Umhverfismál og samfélagsleg ábyrgð verða áfram í miklum forgangi þar sem markmiðið er að minnka losun og auðvelda viðskiptavinum að taka sín eigin umhverfisvænu skref. Sérstök áhersla er á flokkun úrgangs og mikið lagt upp úr samstarfi um prófun nýrra úrvinnslulausna. Skemmtileg og nýstárleg verkefni, líkt og að styðja leikskóla við uppsetningu á endurunnum og sjálfbærum gróðurhúsum, eru komin af stað en þar er stefnan sú að gefa sem flestum leikskólabörnum tækifæri til að rækta sitt eigið grænmeti.
Krónan er brautryðjandi á dagvörumarkaði og vinnur að því markmiði að móta matvöruverslun framtíðarinnar í virku samtali við viðskiptavini og starfsfólk. Sveigjanleiki og þor til að taka stór skref og hafa áhrif í krafti stærðar verður áfram leiðarljósið á nýju rekstrarári.
N1 er með sterkar rætur í íslensku samfélagi sem eitt öflugasta orku- og þjónustufyrirtæki landsins með starfsstöðvar vítt og breitt um Ísland. Starfsemi félagsins er fjölbreytt en meginhlutverk þess felst í að sjá fólki og fyrirtækjum fyrir eldsneyti og raforku um allt land, þ.m.t. raforku til heimila, ásamt bíla- og rekstrarvörum auk veitinga og afþreyingar á þjónustustöðvum félagsins. Þannig heldur N1 samfélaginu á hreyfingu með kraftmikilli þjónustu og markvissu vöruúrvali sem uppfyllir kröfur viðskiptavina hvenær og hvar sem þeim hentar. Þar að auki umbunar félagið N1 korthöfum fyrir viðskiptin með söfnun punkta sem nýta má til kaupa á vörum og þjónustu á N1 stöðvum um land allt.
Starfsemin tekur mið af grunngildum félagsins þar sem áhersla er lögð á að sýna samfélaginu og umhverfinu virðingu, einfalda líf viðskiptavina með þéttu þjónustuneti og hleypa auknum krafti í samfélagið með stuðningi við góð málefni sem auðga mannlífið um allt land.
Félagið starfar á mörgum ólíkum sviðum en frábær hópur starfsfólks skapar sterkan grunn fyrir sókn N1 til framtíðar. Þessi hópur sinnir þörfum viðskiptavina á starfsstöðvum þess um allt land, þ.m.t. á þjónustustöðvum, í verslunum, á dekkja- og smurþjónustuverkstæðum ásamt öflugri fyrirtækjaþjónustu fyrir allar greinar atvinnulífsins. Félagið er virkur þátttakandi í orkuskiptunum með uppbyggingu rafhleðslustöðva á þjónustustöðvum félagsins vítt og breitt um landið ásamt smásölu rafmagns til heimila og fyrirtækja. Mikil áhersla er á stafræna þróun og upplifun viðskiptavina en vefverslun eykst stöðugt með heimsendingum hvert á land sem er.
Rekstur ársins
46.500
bílar umfelgaðir
25.000
viðskiptavinir í rafmagnsviðskiptum
286.000
Dropp sendingar afhendar
759.000
kaffibollar seldir
Eitt stærsta verkefni N1 á komandi árum er að finna leiðir til að flýta orkuskiptum á Íslandi en orkuskiptunum fylgja margir kostir, ekki einungis umhverfislegir ávinningar, heldur einnig fjárhagslegir fyrir þjóðarbúið allt. N1 ætlar sér að verða leiðandi aðili í orkuskiptunum hér á landi með því að tryggja öruggt og víðfeðmt net hraðhleðslustöðva á þjónustustöðvum sínum og auka þannig þjónustu við notendur rafbíla ásamt því að vinna þétt með fyrirtækjum í orkuskiptum í lausnum sem þau velja.
Sem dæmi um mikilvægan áfanga á þessari leið undirritaði N1 rammasamning við Tesla í byrjun árs 2024 um uppbyggingu á hraðhleðslustöðvum á þjónustustöðvum félagsins um land allt þar sem N1 mun að auki byggja upp sitt eigið net hraðhleðslustöðva. Miðað er við að setja upp á næstu tveimur árum 19 nýja hraðhleðslugarða víðs vegar um landið og koma fyrir meira en 150 nýjum hraðhleðslustæðum. Samstarfið er stórt skref í því að tryggja að allir geti ferðast um landið áhyggjulaust og um leið notið þeirrar góðu þjónustu sem N1 veitir viðskiptavinum sínum hringinn í kringum landið.
Bílaþjónusta N1 byggði og opnaði nýja glæsilega þjónustustöð á Flugvöllum í Reykjanesbæ nú rétt eftir áramótin, sína stærstu á Suðurnesjum og þá einu á Íslandi sem býður upp á dekkja- og smurþjónustu, eldsneytis- og rafhleðslustöðvar ásamt hefðbundinni þjónustustöð fyrir fólk á ferðinni. Stöðin mun þjónusta allt svæðið sem er í mikilli sókn.
Mörg fleiri spennandi verkefni eru í gangi. Þar má helst nefna gagngera endurmörkun og staðfærslu á Nesti, veitingahluta N1. Í meginatriðum er markmið breytinganna að uppfæra og samræma þetta rótgróna vörumerki í takt við þarfir og óskir viðskiptavina í nútímasamfélagi. Nýir veitingastaðir, Ísey og Nesti, opnuðu í febrúar í matvöruverslun Krónunnar á Granda og er þetta í fyrsta sinn sem staðir í eigu N1 opna utan þjónustustöðva félagsins. Fleiri spennandi breytingar á veitinga- og upplifunarhluta félagsins verða kynntar á árinu þar sem kapp verður lagt á að bæta enn frekar þjónustu og upplifun viðskiptavina.
Mikil áhersla er á stafræna þróun hjá félaginu. Snjallvæðingin mun halda áfram af krafti þar sem N1 appið verður í forgrunni ásamt nýjum snjöllum sjálfsafgreiðslulausnum sem kynntar verða til leiks á þjónustustöðvum um land allt og koma til með að bæta þjónustuupplifunina enn frekar.
Bakkinn vöruhótel sérhæfir sig í vöruhýsingu, pökkun, vörumerkingu, afgreiðslu og dreifingu á vörum fyrir viðskiptavini sem kjósa að úthýsa sinni vöruhúsastarfsemi að einhverju eða öllu leyti. Félagið rekur tvö vöruhús á höfuðborgarsvæðinu þar sem boðið er upp á hágæða þjónustu til viðskiptavina.
Vöruhúsin eru útbúin til að geta þjónað margvíslegum þörfum, allt frá hýsingu á þurrvörum og raftækjum til hýsingar á margvíslegum tegundum spilliefna. Í báðum vöruhúsum eru sjálfvirkir turnskápar fyrir smávörur sem auka hagræði hýsingar og gera alla vörumeðhöndlun hagkvæma. Mikil áhersla er lögð á gæðaþjónustu, gæðaeftirlit og öryggi í starfseminni sem endurspegla gildi félagsins; Þjónusta – Gæði – Öryggi.
Starfsemi Bakkans er gríðarlega mikilvægur hlekkur í aðfangakeðju samstæðunnar þar sem Krónan, ELKO og N1 eru lykilviðskiptavinir. Félögin treysta á gæði, hagkvæmni, hraða og áreiðanleika þjónustunnar en einnig á sérþekkingu og stöðuga þróun vöruhúsastarfseminnar. Markmið félagsins er að vera samkeppnisfært við önnur vöruhús á landinu með áreiðanlegri og hagkvæmri gæðaþjónustu.
Rekstur ársins
23.000
samtals fermetrar vöruhúsa
9,5 KM
samtals lengd hillurekka
32.000
samtals fjöldi vörubretta
12
tölvustýrðir hilluturnar
Mikil hækkun hrávöruverða á alþjóðamörkuðum á undanförnum árum hefur leitt til áherslubreytinga hjá viðskiptavinum Bakkans. Aukin áhersla er lögð á eigin innflutning, en bætt innkaup ásamt aukinni vörusölu hefur leitt af sér meiri veltuhraða í gegnum vöruhúsin. Aukinn opnunartími verslana og sveiflur í fjölda afhendinga frá einum tíma til annars eru komnar til að vera. Félagið hefur brugðist við með innleiðingu nýs vöruhúsakerfis, endurskipulagningu vinnu í vöruhúsi og fjárfestingu í sjálfvirkni til að mæta þessum kröfum.
Eitt af lykilverkefnum ársins er stefnumótun um vöruhús framtíðarinnar þar sem öll vöruhúsa- og dreifingarstarfsemi samstæðunnar verður skoðuð með þarfir rekstrarfélaganna í huga. Í því sambandi má nefna verkefni um endurskipulagningu vöruhúsa og vinnuferla, hagkvæmniathuganir á aukinni sjálfvirknivæðingu, frekari þróun innkaupaferla og hagkvæmniathugun á byggingu frysti - og kælivörugeymslu á höfuðborgarsvæðinu til að útvíkka starfsemina.
Festi fasteignir verður Yrkir eignir. Yrkir eignir sérhæfir sig í útleigu atvinnuhúsnæðis til félaga í verslunarrekstri og eru fasteignirnar að mestu leyti í útleigu til dótturfélaga Festi.
Á árinu 2023 fór hluti fasteignarekstrar samstæðunnar einnig fram í Festi, móðurfélaginu sem leigði eignir sínar til N1. Skipulagsbreytingar voru gerðar um sl. áramót þegar allur fasteignarekstur samstæðunnar var færður undir Festi fasteignir en einnig skipti félagið um nafn og heitir í dag Yrkir eignir. Framkvæmda- og öryggisdeild heyrir undir Yrki en félagið heldur utan um allar framkvæmdir á fasteignum, lóðum og rekstrareiningum samstæðunnar, hvort sem er í viðhaldsverkefnum eða nýfjárfestingum ásamt öryggismálum. Breytingarnar eru liður í því að skerpa enn frekar á fasteignarekstrinum sem arðbærri sjálfstæðri rekstrareiningu en jafnframt að starfsemin styðji vel við kjarnastarfsemi samstæðunnar.
Heildarfjöldi fasteigna í eigu samstæðunnar í árslok 2023 var 89 og eru þær samtals um 93 þúsund fermetrar að stærð. Nýtingarhlutfallið er 98% en 88% fermetrafjöldans eru notuð fyrir eigin rekstur.
Rekstur ársins
93.000
samtals fermetrar fasteigna
89
fasteignir í eigu samstæðunnar
98%
nýting á fasteignum í útleigu
88%
nýting á fasteignum í útleigu til samstæðunnar
Mikil þekking er á fasteignarekstri hjá samstæðunni. Markmiðin eru áfram að leita allra leiða til að reka fasteignir félaganna á sem hagkvæmastan hátt og standa þétt við bakið á stjórnendum við mat á nýjum fjárfestingarkostum og tækifærum sem þeim fylgja. Áhersla er lögð á að auka samlegð milli rekstrarfélaga Festi þar sem við á.
Stór verkefni eru fram undan. Má þar nefna þróun lóða við Ægisíðu, Stóragerði, Skógarsel og Rofabæ í Reykjavík fyrir ýmist íbúða- eða blandaða byggð. Bygging nýrrar fjölorkustöðvar N1 á Akranesi og við Fiskislóð í Reykjavík, endurnýjun verslunar ELKO í Lindum, endurnýjun verslana Krónunnar á Bíldshöfða og í Grafarholti, uppbygging rafhleðslustöðva vítt og breytt um landið auk annarra viðhalds- og endurnýjunarverkefna á starfsstöðvum samstæðunnar um allt land.